Arna Hrafns 897-7888 og Fúsi Helga 846-0768.

Hestar og menn, menn og málefni líðandi stundar.

28.02.2017 20:57

Í lok febrúar.

Heil og sæl.

Enn og aftur líður allt of langur tími milli skrifa minna, en hvað er að fást um það eins og segir i kvæðinu, hér er ég mættur og eldsprækur.

Er nýbúin að eiga í uppbyggilegu samtali við Guðmund Sveinsson á Sauðárkróki um hugðarefnið okkar, hrossin og ekki síður félagsmál  og segja má að Gummi eigi næsta leik, ég bíð.

Nú er allt komið á fullt í hestamennsku víða um land en af gefnu tilefni ætla ég ekki að nefna aðra staði en Akureyri svo ég fái það nú ekki á mig að vera með einhver stað á heilanum. Það eina sem ég get sagt og viðurkennt með sanni að ég er með hestamennsku og málefni tengda því áhugamáli mínu gjörsamlega á heilanum og líður bara nokkuð vel með það og er ekkert að sverma fyrir lækningu við því.

Nú eru ,,aðeins"  3 mótaraðir á Akureyri í Léttishöllinni. Gamla góða KEA mótaröðin sem er orðin eiginlega meistaradeild okkar Eyfirðinga og þar með er draumur minn til marga ára að rætast. Svo er komin áhugamannadeild sem ber nafn Guðmundar Hjálmarssonar verktaka á Akureyri, frábært framtak þar og svo er mótaröð æskunnar ekki síður glæsilegt og þarft.

Það er búið að keppa í fjórgangi í öllum þessum mótaröðum og vel hefur til tekist og það sem meira er, mikil þátttaka hefur verið í þessum öllum mótum svo það má ljóst vera að þörfin var á þessu, það er gott.

Mér telst svo til að næstu 11 helgar verði eitthvað mót og eða sýningar í Léttishöllinni og það segir sýna sögu um  gróskuna og kraftinn sem nú er í hestamennsku hér í öllum Eyjafirði og aðeins víðar reyndar, því Húsvíkingar hafa verið að koma til okkar og eru sannarlega auðfúsgestir í okkar glæsihöll sem Léttishöllin er. Allir eru velkomnir til okkar Léttismanna. Þannig hefur það alltaf verið og verður svo áfram.

Enn eitt verð ég að nefna hér og það sjá það svo sem allir að svona  öflug já og metnaðarfull dagskrá rekst ekki af sjálfri sér.  Á bak við hvert mót eru tugir manna og kvenna að vinna í sjálfboðavinnu fyrir sitt félag í hinum ýmsu störfum er þarf til að mótahaldið gangi vel og svo ber svo sannalega til hjá okkur Léttismönnum.  Hvert verk er skipað reynslumiklu fólki í bland við nýliða sem vilja leggja lið og óhætt er að segja að sá stóri hópur fólks úr Létti sem leggur nótt við dag við mótahaldið hjá okkur er okkur dýrmætur og svo sannarlega eigum við og erum stolt af okkar fólki.  Þetta fólk fer í öll verkin, ritarar hjá dómurum, ritarar í dómpalli, fótaskoðun, þulir, vallarstjóri, mótsstjóri, miðasala, sjoppan, eldhúsið, þrifin, frágangurinn á eftir og margt fleira sem fellur til.  Þetta er fólkið á bak við tjöldin.

Svo eru það dómararnir, já blessaðir dómararnir vinir mínir og félagar ekki má nú gleyma þeirra framlagi sem svo sannarlega er ekki öfundsvert á stundum. Hver þekkir ekki að hafa heyrt um dómarann sem ætti að klippa skírteinið sinn og snúa sér að öðru, eða "er hann búin að fara í sjónpróf nýlega" svo ekki sé nú nefnt allt talið um heimadómgæsluna.  Nei þeir eru ekki öfundsverðir dómararnir okkar og ég tek ofan fyrir því fólki sem leggur út í hið ólgandi kviksyndi sem dómgæsla hrossa er oft á tíðum.

Sem betur fer er þetta ekki alltaf eins og ofan greinir og það get ég sagt að sem betur fer tel ég og er þá með þá skoðun að dómarar verða hæfari með hverju árinu sem líður og er það vel.

En eitt verð ég þó að nefna varðandi dómarana annars ágæta en það eru launin. Nú segir eflaust einhver " á nú enn einu sinni að byrja að röfla um þetta" en ef svo er að einhverjum finnst það röfl þá er það bara svo en ég ætla samt að gera það að umtalsefni mínu hér í dag.

Nú tek ég það skýrt fram að ég vil að dómarar fái greitt fyrir sína vinnu,  þannig er það í öðrum íþróttum og ég ætla ekki að vera talsmaður þessa að hestadómarara sitji ekki við sama borð og aðrir hvað það varðar. Það sem ég furða mig á og langar að vita hvar var það samþykkt og hvenær, að dómarar taki minnst laun fyrir 4 klst á hverju móti?  og önnur spurning. Hvenær hækkuðu laun dómara og hver ákveður laun dómara?

Ég verð að segja það alveg frá hjartanu að mér var brugðið nú eftir fyrsta KEA mótið okkar hér á Akureyri þegar ég fékk launakröfur dómara eftir mótið. 5 dómarar dæmdu 4 þeirra eru frá Akureyri, allir í Létti og einn frá Húsavík. Allir skrifuðu 4 klst  á mótið sem sé lögboðið útkall. Ég held að mótið hafi staði í rúmar 3 klst. Tek það skýrt fram að sumir okkar dómara hafa verið að gefa vinnuna sína að hluta og jafnvel að öllu leiti á sumum móta undanfarin ár. Það ber að þakka.

Það má vel vera að þetta sé bara allt í lagi og ekki er ég að furða mig á upphæðinni sem slíkri í laununum sem dómarar fá , þau eru ekki það sem skiptir máli, Það er hlutfallið af veltu mótanna sem fer í að greiða dómurum launin sem er vandamálið, en ef svo fer sem horfir þá stöndum við mótshaldarar frammi fyrir því, að mótin eru rekin á undirballans. Að þurfa að  hækka skráningargjöld umtalsvert og þykir sumum nú þegar nóg um, og eða hækka aðgangseyrir inn á mótaraðirnar um helming hið minnsta. Að óbreyttu standa mótin ekki undir þessu lengur. Það er alveg ljóst að óbreytt getur þetta ekki orðið og mun og sennilega þegar farið að sjá þess stað að minni hestamannafélögin eru orðin vanmegnuð að halda lögleg mót. Því er gott að eiga góða granna sem við Léttismenn erum.  Ég skrifa þetta ekki til að gagnrýna laun dómara, en nefndi það hér ofar að til að halda góð hestamót þarf mikið af góðum mannskap. Hvað myndi nú gerast ef allir þ.e.a.s þeir sem ég nefndi hér að ofan myndu nú vilja fá greitt þó ekki væri nema ca 25% af launum dómara fyrir sína vinnu við mótshaldið. Svari hver fyrir sig.

Skrifa þetta til umhugsunar fyrir þá sem vilja velta þessu fyrir sér.

Annað.

Djö...... er kallinn vel ríðandi eins og oft áður, frábær dagur til útreiða í dag og kallinn fór 5 túra og kom sáttur heim úr hverjum túr.

Annars bara að minna á fimmganginn í KEA mótaröðinni n.k föstudag í Léttishöll.

F

13.01.2017 22:04

Sogið til suður.

Halló.

Þá er komin ný ríkisstjórn og vonandi farnast henni vel.

       Ég vona að svo fari þótt því miður ég sé nú ekki bjartsýnn á að þetta stjórnarsamstarf gangi upp. Það er samt ekki svo að ég hafi neitt betra fram að færa. Það er eins og með egginn, þó mér finnist egg ekki góð get ég ekki verpt betri.

       Fyrsta hugsun mín þegar ég sá uppstillingu ráðherranna okkar og hvað þeir koma var þessi. Já víða er landsbyggðin  gleymd.

       Vekur þetta upp ömurlegar minningar um gjörðir stjórnar LH á síðasta ári þegar landbyggðin var hunsuð og 3 næstu landsmót hestamanna verða á Suður og suðvesturlandi.Gert í trássi við reglur og áratuga hefðir fyrri þinga og stjórna LH.  Það sem er enn verra er að engin hreyfir andmælum opinberlega vegna þessa  og engin þorir að tjá sýna skoðun. ( Jú reyndar þeir sem voru þjónustaðir af stjórn LH eins og kóngar á Hólum með hesthús og eflaust fleiri þægindi þeir mæra stjórnina, ( að sjálfsögðu) enda ekkert verið að leita álits hinna sem fengu ekki þjónustu þrátt fyrir gefin loforð um slíkt.

       Þó er ennþá mikil umræða um þessa gjörð ríkistjórnarinnar og sérstaklega Sunnlendingar eru reiðir og ég get alveg deilt þeirri reiði með þeim.

       Í landinu býr ein þjóð, en ráðamenn LH sem og Bjarni Ben og hans meðreiðarsveinar ætla greinilega að skera alveg á þau tengsl og þeir vita að þær raddir sem hæst hafa núna þagna fljótt og allir láta þetta yfir sig ganga og þegar þetta er orðið að veruleika, þá þarf ekkert að hugsa um það í framtíðinni að ráðherrar komi af landbyggðinni, né landsmót hestamanna fari aftur út á land.

        Þannig er einnig farið með okkur hestamenn. Á  síðasta landsþingi LH sagði engin einasti hestamaður af landbyggðinni eitt einasta aukatekið orð um ákvörðun um landsmótin á Suðurlandi og þar með telur núverandi stjórn LH að allir séu svo sáttir við þessa ákvörðun.Ég velti því fyrir mér hvort þingfulltrúar landsbyggðarinnar haldi að þeie  tali( eða tali ekki eins og raun varð á þinginu) fyrir sýna félaga heima í héraði

       Nei það er ekki svo,  mest finnst mér þó um vert að Skagfirðingar sem fengu landsmót á Hólum bara af því að formaður LH var í pólitísku framapoti í kjördæminu(sem reyndar varð honum sem betur fer  ekki til framdráttar) sögðu ekki eitt einasta orð á þinginu og ljóst er að sú mikla dýra uppbygging á Hólum sem greidd var af skattfé landsmanna mun ekki nýtast til landsmótahalds sem þó var í umræðu formanns LH forsenda fyrir uppbyggingunni en heldur ekki vatni eins og dæmið sannar, fyrr en í fyrsta lagi 2024 ef þá þá,  því ég held að á meðan þessi formaður sem nú situr í stjórn LH verði við völd verði aldrei landsmót hestamanna fyrir utan 100 km radíusinn frá Reykjavík.

       Þetta eru LH í dag, landbyggðarsamtökin sjálf!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

       Þannig er einnig  með þessa ríkisstjórn sem enn mér vitanlega hefur ekki fengið nafn, hún mun ekki horfa mikið utar en 100 km radíusinn

       Ég er með tillögu að nafni á ríkisstjórn Bjarna Ben. "Ó borg mín borg og K.Þ.Júl.  

       Stjórn LH vil ég ekki skýra neitt.

Allt annað

       Ég er  komin með 9 hross á hús og um leið og frostið fer niður fyrir - 10° þá fer kallinn að þjálfa og þá munu Himnarnir opnast.

F

25.12.2016 21:11

Gaman.

Halló.

Vonandi hafið þið haft það gott um þessa helgu daga og trúi ég að svo verði áfram.

Ég hef verið svo upptekin síðustu vikur við ýmis mál að ég hef alveg steingleymt að segja frá því að ég er komin með nokkur hross á hús og meira segja búin að járna 3. Hef reyndar ekki komist mikið á bak fyrir önnum eins og fyrr sagði en  þetta stendur allt til bóta.

Já ég hef verið upptekin og ég verð að leyfa mér það hér að nefna að mikið er ég óskaplega stoltur af því að nú loksins hafa heiðursfélagar okkar Léttismanna alls 13. að tölu fengið þann sess sem þeir svo sannarlega ber í félagsheimili okkar Léttismanna, Skeifunni. Þetta er búið að vera draumur minn í mörg herrans ár að koma þessu í verk og því glaðari varð ég þann 16. desember s.l þegar mín kæra vinkona Aldís Björnsdóttir svipti hvíta dúknum af myndunum og þeir heiðursfélagar Léttis eru loksins komnir heim. Ég sem vinn í reiðhöllinni eins og flestir vita, finnst salur okkar Léttismanna , Skeifan vera ennþá meira OKKAR eftir að þessar hetjur eru komnar í hús. Þetta gleður mig. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka Jóni vini mínum Ólafi fyrir alla aðstoðina. Það er eins og með allt er snýr að þessu félagi okkar, Jón segir aldrei nei ef hann er beðin um eitthvað.

Þá hrossin.

 Já ég er komin með 4 hross á hús. Eldjárn okkar Örnu er komin heim aftur eftir tæplega tveggja ára dvöl hjá Karen Konráðs, sem sinnti hestinum afskaplega vel. Nú verður gaman að njóta hans í vetur og mikið væri það nú gaman ef ég kæmi nú henni Örnu minni á bak hestinum. Honum treysti ég 100 % og veit ég að Arna hefði gaman af því að ríða á þessum höfðingja.

Svo er ég með systir hans Eldjárns líka inni og það er hryssa sem er okkur óskaplega verðmæt. Það geta allir riðið á henni og er hún okkar barnahross í dag eftir að Blesi gamli fór yfir á græna engið. Skemmtileg hryssa sem reyndar barnabarn okkar Örnu, hún Júlía Katrín Baldvinsdóttir á í dag en einmitt hún reið á hryssunni dagpart í hestaferð s.l sumar og gekk það eins og hún hafi aldrei gert annað stúlkan sú og Mósa.  

Síðan er ég með tvö afkvæmi Eldjárns og það er svo ánægjulegt að geta þess að einmitt þessi tvö eru líka úr ættlegg hrossanna  hans Afa míns, Steina Magg.

Ísak rauðjarpur stjörnóttur leistóttur höfðingi er sá eldri og nú verð ég að hætta að leika mér á honum og fara að temja hestinn. Þessi hestur er einfaldlega í mínum huga eitthvað sem maður finnur ekki oft á æfinni, gullfallegur stór og viljamikill með þetta frábæra geðslag , Gæðingur með stórum staf.

Svo er ég að byrja með kolsvarta hryssu, Eldjárnsdóttir á 5 vetur sem ég skýrði Snörp á sínum tíma og er það einkar ánægjulegt að vera komin með Snörp í hús. Þetta er gerðarleg hryssa og skynsöm og veit ég að ég verð ekki lengi að kenna henni. Ekki skemmir það fyrir henni í mínum huga að langa langa amma hennar er einmitt nafna hennar, hún Snörp 3139 frá Hvassafelli, ættmóðir hrossa afa  míns  og sama á reyndar við um hann Ísak, Snörp gamla var langa langa amma hans. Þetta finnst mér svo gaman.

Hlakka til að taka meira af hrossum inn og nú mega menn fara að vara sig.

F

 

24.12.2016 16:06

Jólakveðja.

Jólakveðja.

Kæru  ættingjar og vinir, nær sem fjær.

Árið 2016 sem nú senn er á enda hefur á margan hátt verið mjög svo viðburðarríkt. Mikið hefur verið umleikis hjá okkur hestamönnum og margar ánægjustundir höfum við upplifað við leik og störf tengda hestunum okkar.

Árið hefur líka á sér dimma hlið, en því miður á árinu sáum við á bak góðum vinum og félögum. Bið ég þess heitast nú að allir þeir sem nú eiga um sárt að binda vegna ástvinamissa, Guðs blessunar.

Munum að minningin lifir og verður aldrei afmáð.

Það er huggun harmi gegn.

Kæru vinir.

Við Arna mín sendum ykkur öllum hugheilar jólakveðjur með þökk fyrir árið sem er að liða.

Megi nýtt ár boða gæfu og þeim fylgi góðar vættir.

Kveðja úr Vesturgilinu

Fúsi og Arna.

27.11.2016 16:30

Minning.

Magnús Rúnar Árnason

Minning.

Fæddur 31 janúar 1963. Dáinn 14. nóvember 2016

Útför frá Möðruvallarkirkju laugardaginn 26. nóvember kl 14.00.

Elsku vinur okkar, Magnús Rúnar Árnason, jafnaldri minn og góður félagi, nágranni í hesthúsunum til fjölda ára,  er látinn langt fyrir aldur fram aðeins 53 ára að aldri eftir erfiða og snarpa baráttu við krabbamein.

Góður drengur  hefur lotið í lægra haldi  fyrir vágesti sem því miður hefur gert sig heimakomin víða og heggur á stundum á bæði borð. Þvílíkt högg sem nú hefur verið reitt.

Magnús lést á heimili sínu á Þrastarhóli í Hörgársveit, mánudaginn 14. nóvember s.l.

 Á aðeins 9 mánuðum  eru 3 vinir okkar,  foreldrar og sonur  kölluð heim af velli. Eftir standa ástvinir og skilja ekki hvað gengur á og já, í raun vilja ekki trúa orðnum hlut, og skildi engan undra.

Synir Magnúsar, þeir Árni Gísli og Brynjar Logi sjá nú á aðeins 9 mánuðum á bak yndislegum afa, ömmu og pabba sem var sonum sínum allt. Einnig  eiginkona Sigríður Hrefna Jósefsdóttir og dætur hennar tvær Ida og Juliane. Laufey systir Magnúsar hefur mikið misst á einu ári. Sorg þeirra allra verður ekki í orð komið. Hugur okkar Örnu er með ykkur elsku vinir.

 Magnús var vinur vina sinna og fáa þekki ég greiðviknari en hann. Það var ekki sjaldan sem ég kallaði yfir götuna í hesthúsinu og bað Magga aðeins að kíkja á mig og bað hann svo að athuga hvort hann gæti smíðað fyrir mig og eða reddað mér hinu eða þessu úr járni. Alltaf var sama svarið hjá okkar manni "Fer í það á morgun" Það stóðst, ekki leið langur tími þangað til hluturinn sem um var beðinn var mættur í hús.

Maggi var félagi í Hestamannafélaginu Létti í áratugi og var  mikill Léttismaður alla tíð og vildi gera félagi sínu gagn, mörg voru þau  hestamótin, stór og smá sem  hann var fótaskoðunarmaður og það verk kunni hann og vann af kostgæfni og metnaði.

Magnús var sæmdur silfurmerki Hestamannafélagsins Léttis 11. nóvember s.l.

Magnús var ákaflega réttsýnn maður í hugsun og lífsskoðun og vildi að allir væru jafnir og fengju sömu þjónustu og meðferð,  háir sem lágir.

Magnús eignaðist mörg góð hross um ævina og naut þeirra ásamt fjölskyldu sinni í keppni, til útreiða og ferðalaga lengri sem styttri. Hestamennska Magnúar var fjölskyldusport.

Í huga okkar Örnu verður skarð Magga vandfyllt.

En minningin um góðan dreng mun lifa.

Samt er huggun harmi gegn að hafa fengið að sjá það gríðarlega æðruleysi og þrek sem Magnús sýndi í sínum miklu veikindum síðustu vikurnar og það mun eftir standa í minningu um góðan dreng, þeir miklu mannkostir sem hann sýndi svo sannarlega er hann hann hafði að geyma síðustu dagana.

Þvílíkur maður og þvílíkt æðruleysi og manngæska. Það var ekki verið að kvarta, nei, aldrei heyrðist orð frá Magnúsi um hlutskiptið er hann   var í,  en Magnús  vissi undir það síðasta í hvað stemmdi og vildi fyrir alla muni tryggja að sínir nánustu væru hólpnir nyti hann ekki lengur við.

Við Arna mín kveðjum hér góðan vin og félaga og þökkum liðnar stundir.

Ég trúi því að brúnskjótt gæðingshryssa, Skjóna frá Akureyri   sem Magnús átti hér fyrrum,  hafi beðið við hliðið að grundunum eilífu er okkar mann  bar að garði, og þau þeysi nú saman með flaxandi faxið í fangi knapans, um á góðgangi laus við alla þjáningu  og haldi nú til móts við ljósið bjarta sem ég trúi að taki okkur öllum mót á efsta degi.

Kæri vinur, hvíl í friði Guðs.

Elsku Sigga, Ída, Juline,  Árni Gísli, Brynjar Logi og Laufey, sem og aðrir ástvinir.

Innilegar samúðarkveðjur.

Minning um Magnús Rúnar Árnason mun lifa.

Fúsi Helga  og  Arna

04.11.2016 20:52

Föstudagur

Halló kæru félagar.

Loksins loksins er ég mættur aftur. Það verður að fara að gera eitthvað róttækt hér á bæ. Að halda út heimasíðu og segja ekki neitt er bara tímaskekkja  Það er svipað og að vera í stjórn LH. Þaðan kemur  ekki orð, bara misvitrar athafnir, sumar mjög daprar segi ég nú og tala fyrir hönd landbyggðarhestamannsins.  Segi bara svona.

Segi nú bara eins og Eygló Harðardóttir sagði um SDG. Ég nenni nú ekki að tala um LH.

Að öðru og miklu skemmtilegra:

Á morgun ætla ég að setja þakið á taðþróna mína ( skítakassann) og svo segi ég það satt, mig er farið að langa að komast á hestbak. Það verður ekki langt þangað til ég verð orðin friðlaus og komin með eitthvað gott í hús. Næg verkefni eru framundan 3 ótamin undan Eldjárni og mjög spennandi tryppi þar.

Það er heldur fámennt á reiðstígum Akureyrarbæjar þessi dægrin og ég held að á meðan ekki snjóar muni það bara ekki breytast að neinu viti fyrr en komið er fram í jólamánuðinn.

Ég er svo lánsamur að vera eins og atvinnumennirnir í fótboltanum sem fá að vinna við það sem er þeirra helsta áhugamál. Svo er með mig og að fá að starfa fyrir hestamenn er mér mikils virði. Ég ann mjög félaginu er ég starfa fyrir og er svo snortin af sögu þess og þeim afrekum er þeir sem á undan fóru afrekuðu og þar er af nógu að taka.

Mér varð hugsað til þess enn og aftur í gær er ég gekk um Kaupangsbakkana í vettvangsskoðun  hvílík gæfa það var fyrir okkur Léttisfélaga að félagar okkar á síðustu öld voru svo framsýnir að kaupa jörðina. Hvar stæðum við Léttismenn, já og aðrir hestamenn ef svo hefði ekki farið? Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda. Ég er endalaust þakklátur fyrir það að jörðin komst í eigu Léttis.


Nú er búið að opna reiðhöllina og einn og einn knapi birtist þar annað slagið og mikið er nú gaman að sjá að líf er að kvikna á ný eftir haustfríið.

Ég á von á ákaflega skemmtilegum vetri í Léttishöllinni og þær hugmyndir sem menn hafa verið að vinna með um tvær mótaraðir í vetur sýna bara kjark og áræðni sem við Léttismenn höfum yfir að ráða.

Kæru vinir.

Takk fyrir þolinmæðina að bíða eftir skrifum  frá mér og nú ætla ég að fara að vera duglegri að skrifa hér og birta einhverjar myndir.

Sæl að sinni.

F

03.10.2016 21:12

Reiðvegamál.

Gott kvöld kæru vinir.

Langt er um liðið síðan hér sást eitthvað á prenti eftir mig og fyrir því eru ýmsar ástæður. Framsóknaflokkurinn brennur og hef ég verið nú löngum stundum við að slökkva elda sem því miður brenna enn. Ok ég er hættur að reyna að bjarga þeim og mér sýnist Vigdís Hauksdóttir ganga skörulega fram í því að halda við glóðunum og verði henni að góðu.

 

En kæru vinir þessi rás hér skal aldrei aftur verða vettvangur til pólitískra umræðu, því lofa ég og því ætla að ég að snúa mér að miklu merkilegri málefnum en andarslitrum Framsóknarflokksins.

Mig langar að rifja upp.

Þann 5. Nóvember 2015 fyrir rétt tæpu ári síðan kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í svokölluðu Munkaþverármáli sem sennilega er orðið eitt umtalaðasta og umdeildasta reiðvegamál Íslandssögunar og örugglega það dýrasta.

 Ekki er nægjanlegt pláss hér að rifja þessa sögu alla upp, hún er til á prenti ,  en gömul er hún orðin þessi deila og mörg orð hafa verið sögð um þessa reiðvegadeilu sem framan af var rekin af Hestamannafélögunum Létti og Funa gegn landeigendum Munkaþverá í Eyjafirði.

Á síðari stigum tók stjórn LH þetta mál yfir að hluta til, en engu að síður var Hestamannafélagið Funi enn annar málsaðili og var það allt til uppkvaðningu hæstréttadómsins, en Léttir fór frá málinu samkvæmt leiðbeiningum lögfræðinga. Reiðvegurinn er í umdæmi Hestamannafélagsins Funa.

Gott og vel.

 Nú á þessum umrædda degi 5. nóvember 2015 sem reyndar ber upp á 87 ára afmæli Hestamannafélagsins Léttis féll svo hæstaréttardómurinn.

 Í raun veit ég enn þann dag í dag tæpu ári síðar ekki hvað þessi hæstaréttardómur þýðir í raun fyrir okkur hestamenn, því ef ég les hann er hvergi í dómnum nefnt að hestamönnum sé meinuð umferð um land það er dómurinn tekur til.

Ok ég er ekki löglærður maður, en gott og vel og að ráði lögmanna hestamanna var þeim fyrirmælum beint til okkar að aðhafast ekkert að svo stöddu. Farið yrði nú í það að túlka dóminn og skoða næstu skref.

Nú er ég með undir höndum fundargerð fundar sem formaður reiðveganefndar LH Halldór Halldórsson boðaði til 17. nóvember gagngert til að bregðast við dómnum og að sjálfsögðu var stjórn LH eða fulltrúar stjórnarinnar boðaðir á fundinn og samkvæmt fundargerðinni sat varaformaður LH fundinn, fyrir hönd stjórnar LH væntanlega.

Síðan þá, það er 17. nóvember fyrir réttum 11 mánuðum síðan hefur nákvæmlega ekkert gerst í þessu máli og stjórn LH sem er að ég hef haldið hagsmunaaðili þessa máls og málsvari hestamanna í landinu, hefur ekki brugðist við með neinum hætti og samkvæmt upplýsingum sem ég hef hefur hvorki formaður LH né annað stjórnarmaður haft samband við reiðveganefnd LH og eða formann nefndarinnar til að ræða þetta mál.

Samkvæmt gögnum sem ég hef hefur reiðvegasjóður LH lagt fram um og yfir tug milljóna í málskostnað vegna þessa máls og nú svo þegar málið er komið í Hæstarétt þá heyrist ekkert meir. Þar fyrir utan er búið að leggja margar milljónir í umræddan reiðveg beggja vegna við Munkaþverá.

Til hvers er stjórn LH ef ekki að bregðast við þessu máli.?

Hagsmunir hestamanna, ekki bara í Eyjafirði, heldur á landinu öllu eru svo gríðarlegir vegna þessa dóms og sorglegt er að horfa á það sem Léttismaður, búin að berjast með félögum mínum í Létti í árafjöld fyrir þessari umæddu reiðleið að það skuli vera nú að enda með tómum aulahætti stjórnar LH. Stjórn LH ber að bregðast við þessum dómi það er öllum ljóst til þess er hún, að verja hagsmuni hestamanna.

Hestamannafélaginu Létti var ráðlagt af lögfræðingum m.a frá LH að draga sig til hlés á sínum tíma út úr þessu máli og það gerðum við, en engu að síður er það ömulegra en tárum taki að eftir allt sem menn hafa lagt á sig hér heima í héraði skuli það vera stjórn LH sem bregst þannig við þessu máli að það er nánast að engu orðið.

Er stjórn LH með andvaraleysi sínu að viðurkenna að réttarstaða hestamanna sé með þeim hætti að við munum eiga von á að gamlar þjóðleiðir og fornar slóðir sem hestamenn hafa farið í árhundruð verði bara si sona lokað og punktur.

Nú er framundan þing LH og skora ég á þingfulltrúa Funa sem og aðra sem láta sig reiðvegamál varða, hvar svo sem þeir eru í sveit settir að vekja nú stjórn LH af þyrnirósarsvefni í þessu máli og bjarga því sem bjargað verður. Ef ekki á að ræða þessa grafalvarlegu stöðu á LH þingi, þá hvar.?

Hagsmunir okkar allra hestamanna á Íslandi  já og í raun ferðafrelsi á hestbaki um landið  eru í húfi og sem betur fer snýst nú hestamennskan í landinu um meira en hringvallargreinar og lög og reglur þeim samfara með fullri virðingu fyrir þeim.

F.

Meira fljótt.

06.08.2016 21:03

Hestaferð 2016.

Hestaferð.

Jæja þá held ég áfram að rekja ferðir okkar félaga sem erum í þessum töluðu orðum í hestaferð um Þingeyjarsýslu.

Í gær föstudag fórum við frá bænum Hvarfi í Bárðardal og riðum yfir í eyjuna sem leið liggur niður í Fosshól.  Jesús minn, þvílík reiðleið næst því að vera í hinmariki að mínu viti. Og svo þegar við komum niður að Goðafossi þá maður minn tók við einkennileg atburðarrás. Við fossinn og á bílaplaninu sem var gjörsamlega stappað af bílum og fólki sem eflaust hefur verið nær 1000 þá gerðist það er við komum yfir ána og riðum meðfram veginum upp að fossinum, snéru allir útlendingarnir sér við og tóku myndir af okkur og lausu hestunum. Dágóðar tekjur hefum við haft ef við hefðum rukkar þó ekki væri nema svo sem 200 kall fyrir myndina. Nú kom það vel í ljós hve góð aðstaðan er við Kjartan frændi minn komum upp vestan gömlu brúarinnar og hliðinu sem sett var á girðinguna til að stjórna hvenær hrossin fara inn á brúna, tær snilld, og ekki fannst okkur neitt leiðinlegt heldur að koma í réttina á Fosshól og njóta hennar meðan áð var.

Svo eftir góða stund á Fosshóli með kaffi og alles frá frú Örnu var lagt aftur af stað og nú kveður við nýjan tón. Leiðin frá Fosshóli og upp á heiðina er svo gjörsamlega ólíðaleg með öllu og nú verða Þjálfa menn að girða upp um sig brækurnar og gera hér bragabót. Að þurfa að ríða meðfram þjóðvegi no 1 í vaðandi drullu og ógeði með ofsaakstur upp og niður heiðina er óþolandi og nú skora ég á ágæta vini mína í Þjálfa að fara nú þegar í viðræður við þar til bær yfirvöld og laga þetta, við Léttismenn erum albúnir að koma til aðstoðar ef til okkar yrði leitað.

Já leið okkar lá í Stóru - Laugar í Reykjadal og þar geymdum við hrossin í nótt. Þegar búið var að ganga frá hrossum var farið í Kotungsstaði í þessa ekkert smáræðis grillveislu og það skal endurtekið, ekkert smáræðis grillveislu. Hvað er dásamlegra en einmitt þetta. Ríða í góðra vina hópi og gleðjast með mönnum og hestum.

Í morgun var mætt í Stóru - Laugar kl 9.30 og nú hafði bæst í hópinn einn gleðigjafinn. Haraldur nokkur Helgason og ekki þyngdi það á okkur brúnina. Farið var af stað eftir yfirferð á skeifum og þess háttar og riðið upp á Laxárdalsheiði á aldeilis frábærar moldargötur og í Másvatn er áð var. Þaðan var riðið upp í Stöng í Mývatnssveit,  og þvílík dásemd allt saman, og ekki sýst móttökurnar í Stöng.

Frábær aðstaða og þar var sest að kaffi, gós og ögn bjórdrykkju með nýbökuðum kleinum, þetta var forréttur að því er koma skyldi. á meðan aðalrétturinn var eldaður skellti ég mér einn ferðalaga í heita pottinn og lét renna af mér ferðaþreytuna. Ég var í paradís. Og svo kom kvöldverðurinn jesús minn. Sveppasúpa í forrétt og svo lambakjöt og eða silungur. Já ég segi hiklaust þetta verður tæplega toppað.

Þetta er lífið.

F

P.s Arna var með myndavélina og skaut nokkrum skotum á okkur.

Hér er verið að skríða upp Fljótsheiðina.

 Hér erum við Birna að koma niður af heiðinni.

 Hér er ég búin að fanga Eldjárnsdóttur sem ég er mikið montinn með.

 Hrossin hlaupa niður að Einarsstöðum

 Þeir bræður og frændur mínir Kjartan og Haraldur Helgasynir.

 Arna fangað augnablikið er við fetum upp Laxárdalsheiðina ofan Lauga

 Er að koma niður að Mássvatni eftir aldeilis frábæra ferð um heiðina.

 Verið að spegúlera og flugan mætt.

 Hér hef ég tekið tóma bjórdós og vil koma henni í endurvinnslu.

 Áð við Másvatn.

 Hér erum við Birna að reka stóðið af stað.

 Þjóðvegur númer 1 við Másvatn.

 Hér erum við að verða komin í Stöng eftir frábæran dag.

17.06.2016 23:27

17. júní

Halló

Ja. þvílíkir dýrðardagar sem við erum að fá núna í Júní. Ég held að ég fari mjög nærri sanni þegar ég segi að allur þessi mánuður er af er og nokkrir lokadagar maí hafi verið dásemdin ein og frábært veður dag eftir dag. Þetta hjálpar gróðri að hefja sína vegferð þetta sumarið og ég sem smábóndi þarf nú að huga að slætti á nýræktinni okkar suður og upp. 

 Gæðingakeppni Léttis lauk með glans s.l sunnudag og þar voru endanlega valdir keppendur okkar Léttismanna til farar í Hóla á mótið. Bæði til að vera sanngjarn en um leið til að gera mig ekki leiðan ætla ég ekki frekar að ræða mótið á Hólum sem ég get því miður ekki kallað L................ ok búið. Varðandi gæðingakeppnina um síðustu helgi þá bar þar til tíðinda að loksins loksins eftir 4 ára baráttu mína erum við Léttismenn endanlega búnir að klára allt er snýr að útvarsendingum á mótum hjá okkur, bæði í höllinni og nú á Hlíðarholtsvellinum en nýtt loftnet var sett upp í aðdraganda mótsins sem mun svo vera eftirleiðis. Já 4 ára þrautargöngu er þar með lokið, til hamingju Léttismenn.

  Hér Davíð Guðmundsson að klára að tengja útvarsploftnetið við sendinn okkar, þessi mynd er tekin rétt fyrir miðnætti og fjörðurinn okkar skartar sínu fegursta. Já það eru stundum langir vinnudagar hjá Létti.


Ég hef verið aðeins að dunda við útreiðar síðustu dægrin og mikið óskaplega er þetta skemmtilegt, en um leið finn ég hve hrossin mín eru í lítilli brúkun enda ég búin að vera meira og minna frá vegna meiðsla frá því byrjun mars. En nú er ég komin á fullt, heilsan að verða fullkomin  og ferðahugur komin í mig.

Í gærkvöldi fór ég í hina svokölluðu árlegu Framfarareið.

 Riðið var í  ca 40 hestamanna hópi góðra félaga og vina frá Litlu-Brekku suður að Möðruvöllum og niður þar á árbakka Hörgár út að  Hofi og upp í Litlu-Brekku aftur. Þetta er alveg frábær leið og að ríða á góðu hrossi á grasi grónum bökkunum er ævintýri líkast. Ég var svo sem ekkert sérstaklega illa ríðandi í gærkvöldi. Fór með hana Glódísi Eldjárnsdóttur og Skjónu frá Ytri-Brennihóli og sú var í stuði og vakti þó nokkra athygli enda hryssan frábær.

 Svo var grillað á eftir og sungið og spjallað fram á fallega júnínóttina í hreint dásamlegu veðri, við frábærar aðstæður hjá þeim Vigni, Jónínu og Garðari í Litlu-Brekku.


 Glæsilegur hópur komin á bak og albúin að leggja af stað frá Litlu-Brekku.

 Hér er Garðar Lárusson búin að fanga hundinn og er tilbúin að undirbúa grillið fyrir okkur. Það get ég sagt með sanni að Garðar Lárusson er og hefur í árafjöld verið Hestamannafélaginu Létti þvílíkur gullmoli og verk hans fyrir félagið munu lifa lengi. Léttir er ríkt félag að eiga mann eins og Garðar.

 Hér er setið að veigum í föstu og fljótandi Magnús Rúnar Árnason, Þorvar Þorsteinsson og Vignir Sigurðsson eflaust að ræða einhvern stóðhestinn. Að baki Jóhanna kona Þorvars og Ólöf á Þrastarhóli. Þór í Skriðu á öðru borði eflaust í annari stóðhestaumræðu.  

 Heimasæturnar tvær í Litlu-Brekku.

 Hér í anddyrinu á hlöðunni í Litlu-Brekku er mikið mannval. Sitjandi Sigmar Bragason og Ingvi. Viðar tengdapabbi Ingva skennkir Ga Jol handa líðnum Sigmundur Sigurjónsson og Jón Páll Tryggvason bíða á garðanum eftir skotinu. Dásamlegir félagar og vinir.

Ég var að hugsa um það að Hörgárdalurinn er að taka algjöra forustu í því að vista hestamennsku og á undanförnum árum hefur verið byggð frábær aðstaða til hestahalds á nokkrum bæjum í hreppnum og gríðarlegur metnaður í þeirri uppbyggingu.

Það sem hefur setið eftir er reiðvegagerð og nú þurfum við Léttismenn að snúa okkur að því að koma upp reiðvegakerfi í hreppnum og skora ég á sveitarstjórn Hörgárbyggðar að  styðja það starf. Mikil verkefni bíða og nú er lag að byrja strax að hanna og leita bestu legu reiðvegar frá Hofi og upp á efri byggðina og fram hjá Möðruvöllum og fram dalinn að vestan. Ég sem áhugamaður um reiðvegagerð er tilbúin að leggja mitt að mörkum í þeirri vinnu.

Í dag er þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga og þessi dagur er alltaf mér kær, bæði fannst mér sem barn og unglingur alltaf gaman á 17 júní og nú síðari árin minnist ég góðra stunda þegar dætur mínar  útskrifuðust frá Menntaskólanum á Akureyri á þessum degi og seint mun mér úr minni renna 17 júní 2014 þegar Margrét mín Sylvía  dúxaði frá þessari merku menntastofnum ,MA. Sú stund gleymist aldrei.

 Mikið óskaplega er ég stoltur á þessari mynd með dúxinum Margréti minni Sylvíu úr Menntaskólanum á Akureyri 17. júní 2014.

Annars er ég bara nokkuð brattur. Finnst gaman að vinna fyrir hestamenn og finn meðbyr í starfi okkar. Auðvitað er það svo að alltaf má gera betur en ég tel að við sem stöndum í fylkingarbrjósti hestamanna hér í bæ séum á réttri leið og seint verð ég þreyttur að nefna þá frábæru uppbyggingu sem byggð hefur verið á Kaupangsbökkunum, sú aðstaða sem þar er komin er frábær  og hefur nú þegar sannað sig enda  margir komið þar nú í vor og í sumarbyrjun og notið þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Við þurfum að ganga þarna vel um, virða þær reglur er þar gilda og sameinast um að standa vörð um félaga Hestamannafélagsins Léttis og eigur okkar. Við getum bætt um betur og með samstöðu og samheldni færumst við fram. Við Léttisfélagar erum líka að bæta verulega í aðstöðuna á Sörlastöðum í Fnjóskadal og ætlum svo að hefja að fullum krafti frekari uppbyggingu aðstöðu fyrir okkur á Melgerðismelum.

Já vorið og fyrstu vikur sumars gefa okkur góð fyrirheit um gott sumar og vonandi náum við að njóta þess.

Set hér með nokkrar myndir er ég og konan höfum verið að taka

síðustu misserin.Má til með að leyfa þessari mynd að fljóta með. Ég hef alltaf verið þeirrar gæfu aðnjótandi að börn hafa hænst að mér og þessi mynd staðfestir það dálaglega en hér eru 5 gullmolar sem við Arna eigum.


30.05.2016 21:38

Af baki dottinn.

Heil og sæl.

Titill þessa skrifa  er " Af baki dottinn"  og því miður er það svo að undanfarnar vikur hafa  nokkrir góðir félagar okkar dottið af hestbaki.

Í öllum tilfellum er um slys að ræða, en eflaust ef sett yrði á stofn rannsóknarnefnd hestaslysa lýkri rannsóknarnefnd samgönguslysa mætti eflaust á endanum rekja eitthvað þessa slysa til gáleysis, kæruleysis eða að þetta eða hitt olli slysinu, en um þetta ætla ég ekki að fjölyrða meir.

Vissulega eru þessi hestaslys mismunandi alvarleg en einkum kemur mér upp í hugann skaði vina minna, þeirra Þórs  Sigurðssonar, Jóns Ólafs Sigfússonar  og Ásbjörns Valgeirssonar sem lentu mjög illa í  þessari óskemmtilegu reynslu nú í vor. Sem betur fer eru þessi góðu vinir mínir allir komnir á ról aftur,  þó langur tími muni eflaust líða þangað til þeir fara í hnakkinn aftur.

Nokkrir aðrir hlutu slæmar byltur og beinbrot sem sem betur fer eru að gróa. Sendi ég þeim öllum mínar bestu bataóskir og bið hina sem ekki eru búnir að detta af hestbaki að passa sig og sérstaklega nú í aðdraganda Króksstaðareiðar um næstu helgi þar sem mjög margir óvanir hestamenn setjast í hnakk.

Hestamennska er íþrótt sem stunda verður af ábyrgð og festu og þótt stundum hlaupi galsi í menn og hesta þurfum við ætíð að fara varlega.

 Í gegnum árin hafa því miður nokkrir hestamenn látið lífið við það að detta af baki og skemmst er að minnast hins hörmulega slys er félagi okkar Léttismanna Guðrún Hallgrímsdóttir lét lífið eftir slíkt slys. Blessuð sé minning hennar.

Kæru vinir.

Vonandi mun ég nú hafa náð ritstíflunni úr mér og það er aldrei að vita nema nú komi á næstu dögum vikum og mánuðum reglulegir pistlar hér inn um menn og málefni. Af nógu er að taka sem betur fer og miklu fremur jákvæðar fréttir,  þótt ég dragi ekki dul á það að málefni Landssambands hestamanna eru að mínu mati í algjörri steypu og  stjórn þeirra samtaka með allt niður um sig og fremstur fer þar í flokki formaður okkar samtaka. Andrea vinkona mín Þorvaldsdóttir sem situr í þessari stjórn LH er hér undanþegin og ekki í öfundsverðri stöðu. Andrea er ein stjórnamanna núverandi stjórnar LH sem sat í stjórn Haraldar Þórarinssonar og fyrir það hefur hún þurft að líða. Ég mun fyrr en síðar tjá mig meir um þau mál öll, en því miður óttast ég framtíð LH með þennan formann samtakanna við stjórnvölinn.

En aftur að upphafinu " af baki dottinn"

Þótt vissulega sé það grafalvarlegt þegar slys verða og menn brjóta bein og verða fyrir misska er gott að geta gert smá grín að öllu saman og það einmitt gerði Valgeir Einar Ásbjörnsson sonur Ásbjarnar, sem verðlaunaði föður sinn með medalíu daginn sem Ásbjörn fékk að fara heim af sjúkrahúsi eftir hálfsmánaðar legu.

Á gullpeningnum stendur "Léttir"  Fall ársins 2016.

Já það er gott að vita að hægt er að hafa gaman að þessu eftirá.

F

Ps. Ásbjörn er á hægum en öruggum batavegi.

  • 1

Eldjárn

Nafn:

Fúsi helga og Arna hrafns

Farsími:

846-0768-897-7888

Afmælisdagur:

0202-2909.

Heimilisfang:

Langholt 16

Staðsetning:

Akureyri

Heimasími:

462-3713

Um:

Hestar og hestamenn
Flettingar í dag: 22
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 128
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 563346
Samtals gestir: 108849
Tölur uppfærðar: 25.5.2017 01:45:21